4. september 2011
Gangan á Klofningsfjall
Að þessu sinni mættu aðeins þrír Dalagarpar í gönguna á Klofningsfjall. Lagt var af stað frá Stakkabergi kl. 11.00 í blíðskaparveðri. Gengið var upp með Fábeinsá upp á brún og var hækkunin um 450 metrar. Síðan var gengið fram fjallið út að Klofningi. Fram á brún var einstaklega fallegt útsýni og ótrúlegt að sjá allar þessar eyjar, Hvammsfjarðarröstina, Dagverðarnesið og Langeyjarnesið úr lofti. Útsýni var einnig frábært vestur á firði og sást Flatey t.d. mjög vel með húsum og öllu. Farin var hlíðin til baka og farið stall af stalli frá Hnúki og niður að Stakkabergi. Berjalyng voru svört af stórum Krækiberjum alla leiðina. Samtals var gengin 9, 2 kílómeter á 5,5 klukkstundum. Hæsti punktur yfir sjó var 510 m.
30. ágúst 2011
Klofningsfjall
Á sunnudaginn kemur kl. 11.00 er áætluð gönguferð á Klofningsfjall. Verðurspá er hagstæð eins og er og fjallið hvorki hátt né erfitt. Útsýni af fjallinu er mjög mikið og fallegt og nær yfir allan Breiðafjörð. Gengið verður upp frá bænum Stakkabergi. Nú er um að gera að fjölmenna í þessa síðustu göngu sumarsins. Góð upphitun fyrir komandi smalamennsku.
Dalagarpar verða svo vonandi uppi um öll fjöll í haust á eftir blessaðri sauðkindinni.
11. ágúst 2011
Hafratindur í Saurbæ
Næstkomandi sunnudag er á dagskránni að klífa hið fagra fjall Hafratind í Saurbæ. Þetta fjall er rúmlega 900 metra hátt með frábært útsýni af toppnum yfir allan Breiðafjörð og vestur á firði.
Lagt verður af stað eins og venjulega kl. 11.00. Við göngum frá Þverdal, sem er eyðubýli inni í Staðarhólsdalnum. Farið er yfir Staðarhólsánna á brúnni að Kverngrjóti og ekið þaðan að Þverdal. Gengið verður uppúr Þverdalnum á fjallið og farið á báða toppa fjallsins. Gengið verður sömu leið til baka. Ætla má daginn í gönguna, sem hvergi er neitt erfið en stundum brött og eitthvað verður um stórgrýti. Sturlaugur Eyjólfsson göngugarpur og eftirlaunaþegi gengur með hópnum.
Því miður er veðurspáin nokkuð tvísýn að þessu sinni. Því vill ég fá svör, í tölvupósti eða símleiðis (899 7037), frá öllum þeim, sem hyggjast leggja á fjallið svo hægt sé á auðveldan hátt að aflýsa göngunni ef með þarf.
Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta.
Lói
19. júlí 2011
Næsta kvöldganga - Grafartindar
Framundan er kvöldganga á Grafartinda í Reykjardal. Gangan hefst kl.18.00 fimmtudaginn 21. júlí og verður lagt af stað frá gilinu þar sem sumarbústaðirnir standa. Gengið er austanmeginn við gilið upp eftir götu sem hefur myndast þar. Grafartindar eru yfir 800 m háir svo hækkunin er allnokkur. Leiðin er hinsvegar hvergi erfið. Útsýni af tindunum er mjög gott.
22. júní 2011
Baula
Næstkomandi sunnudag kl.11.00 verður gengið á Baulu. Við skulum hittast í gömlu S-beyjunni (neðstu beyjunni) sunnan Bröttubrekku og skoða hvort við komumst yfir ánna þaðan. Þarf kannski að vaða lítilega ef ekki er hægt að skoppa á steinum yfir. Það munar nokkuð á göngulengd að þurfa ekki að fara yfir brúnna og hefja gönguna þaðan.
Líparítfjallið Baula er 917 metra hátt og er ekki næstum eins illkleyft eins og það lítur út fyrir að vera. Áfast Baulu er Mælifellið, sem gæti hentað þeim sem ekki treysta sér á Bauluna en vilja engu að síður ganga á fjall. Hægt er að ganga nokkuð auðveldlega á Baulu úr minnst þremur áttum. Nokkur snjór er nú í fjallinu og skulum við athuga hvort hann varni nokkuð norðausturleiðinni, en hún er talin auðveldasta leiðin. Stórgrýtt er í fjallinu en lítið um kletta. Ekki er gott að ganga fannir á þessu fjalli og ber að varast þær. Uppgöngutími er trúlega um 3-4 klukkustundir eftir færi og uppgönguleið. Það má reikna með mestöllum deginum í þetta og því þarf slatta af nesti í bakpokann. Á toppi Baulu er oft dúnalogn og afar gott útsýni.
Veðurspá er nokkuð góð en Dalagarpar hafa ekki samt ekki haft góða veðrið með sér enn sem komið er. Vonandi breytist það á sunnudaginn.
Tökum góða veðrið með okkur og mætum sem flest á Baulu.
15. júní 2011
Gönguferð fyrir alla
Minnum Dalagarpa á eftirfarandi göngutúr
![]() | |
![]() | |
![]() |
Í Dölum verður haldið af stað frá Ytri-Fagradal kl 16:00. Gengið verður niður að fjöru og farið eftir ströndinni að Nýpurá. Þá verður gengið að Nýp. Þar getur fólk valið um að ljúka göngunni eða rölta eftir veginum inn að Ytri-Fagradal.
Fjölbreytt flóra er á þessari leið, sum blómin jafnvel eldgömul og steingerð!
Áætlað er að göngutúrinn taki um tvo tíma og er þetta auðveld ganga öllum aldurshópum.
12. júní 2011
Fréttir af göngunni á Háfinn
Þegar á gönguna leið upp fjallið lentu Göngugarpar í miklum vindstreng sem lá niður dalinn efst í fjallinu. Svo mikill var vindurinn og kuldinn að ekki náðu allir toppnum í þetta skiptið.
Sökum veðurs var myndavélin lítið notuð og fylgja aðeins þessar tvær myndir þessari göngu.
En sem komið er hafa Dalagarpar ekki náð að ganga í blíðskaparveðri. Hefur veiður heldur versnað í göngum þeirra eftir því sem á sumarið hefur liðið.
7. júní 2011
Fyrsta kvöldganga sumarsins
Fimmtudaginn 9. júní kl. 18.00 verður gengið á fjallið Háf og tindinn Hrískinnahnjúk í Miðdölum. Báðir tindarnir erum rúmlega 800 metra háir. Dalagarpar hafa fengið leyfi hjá bændunum á Háafelli til að leggja bílum á bæjarhlaðinu og hefja fjallgönguna þaðan. Gengið verður frá fjárhúsunum, utan girðingar upp með gilinu og þaðan norðan eða norðvestanmegin á fjallið.
Gönguferðin upp á Háfinn ætti að taka um klukkustund og síðan tekur það annan klukkutíma að ganga upp á Hrískinnahnjúk. Þannig að í allt ætti gönguferðin að taka rúmar 4 klukkustundir fram og til baka.
Gönguferðin upp á Háfinn ætti að taka um klukkustund og síðan tekur það annan klukkutíma að ganga upp á Hrískinnahnjúk. Þannig að í allt ætti gönguferðin að taka rúmar 4 klukkustundir fram og til baka.
Þar sem þessi ganga er til muna erfiðari en fyrstu tvær göngurnar er upplagt fyrir þá sem hægar fara yfir að ganga aðeins á annan tindinn.
Spáð er köldu veðri þetta kvöld og nokkuð víst að uppi á tindunum verður hitastig undir frostmarki.
Því miður verður heimilisfólk á Háafelli ekki heima þetta kvöldið og geta því ekki verið með leiðsögn.
Svo er bara að fjölmenna í gönguna.
Herdís og Eyjólfur
29. maí 2011
Það voru aðeins níu Dalagarpar sem lögðu í það að ganga fyrir Skorravíkurmúlann í dag. Sennilega setti veðrið strik í reikninginn, en norðanáttin var ansi stíf og köld (6 gráður) út Hvammsfjörðinn. Þá er sauðburði ekki ennþá lokið svo ekki komust sauðfjárbændurinir með í dag.
Nokkurn tíma tók að að flytja bíla að hinum enda gönguleiðarinnar en göngumenn lögðu af stað frá Teigi rétt fyrir kl. 12.00 og gengu í þrjá og hálfan tíma að Skorravíkuránni. Vindurinn var allan tímann í bakið. Staldarað var við á Ketilsstöðum og í Skorravík ásamt einu nestisstoppi. Vegna kuldans urðu stoppin í færra lagi.
Ferðin var öll hin hressilegasta og ekki vantaði góða skapið og gleðina í hópinn. Myndir sem Nonni og Lói tóku eru nú komnar inn á heimasíðuna og eru á þessari slóð hérna.
26. maí 2011
Nú á sunnudaginn kemur leggjum við í næstu göngu. Við ætlum að ganga fyrir Skorravíkurmúla á Fellsströnd. Gangan er öll á jafnsléttu eftir vegslóða og því alls ekki erfið. Áætlað er að gangan taki minnst þrjá tíma en einhver tími fer í flutninga á bílum og fólki. Síðasta áætlun um göngutíma og ferðatíma fór gjörsamlega í vaskinn, svo vinsamlega takið þessari áætlun með fyrirvara. Eins og í síðustu göngu verður enginn að flýta sér neitt... nema veður verði því mun verra. Áherslan er á samveru og útiveru.
Mæting er kl. 11.00 við afleggjarann niður að Teigi. Þar ráðum við aðeins ráðum okkar áður en lengra er haldið á afleggjarann, því við þurfum að að færa x marga bíla (fer eftir fjölda göngumanna) vegleiðina yfir að hinum enda gönguleiðarinnar (Skorravík). Spáð er hægu, mildu og þuru verði af norðaustan, en án sólar. Hiti 8 - 10 stig.
Þegar þetta er skrifað er ekki fast í hendi hver verður leiðsögumaður okkar í ferðinni.
Nú er vonandi farið að hægjast um hjá sauðfjárbændum svo vonandi sjá þeir sér nú fært að koma með.
Sjáumst sem flest
Eyjólfur og Herdís
17. maí 2011
Göngudagatalið
Það hefur heldur verið fjölga í hópnum hjá okkur og eru félagar nú orðnir 23 talsins á öllum aldri. Ef þið vitið um einhvern áhugasaman látið þá endilega vita.
Nú líður að næstu göngu og er hún áætluð sunnudaginn 29. maí. Verður þá gengið fyrir Skorravíkurmúla á Fellsströnd. Gönguleiðin er nokkuð löng (fer þó eftir útfærslu) en er öll á jafnsléttu og auðveld. Sveinn á Staðarfelli áætlar að það taki um fjórar klukkustundir með þægindarstoppum að labba leiðina frá Teigi. Áætlun ferðarinnar verður kynnt er nær dregur.
Áætlun á göngur sumarsins er komin inn á göngudagatalið hér til hliðar. Áætlunin er unnin eftir áherslum sem urðu til í heita pottinum á Laugum eftir síðustu göngu. Ljóst er að áætlaðar göngur skarast við ýmsa atburði innan héraðs sem utan en vonandi verða alltaf einhverjir til að mæta í hverja göngu fyrir sig. Áætlað er einnig að vera með kirkjugöngur frá Búðardal upp í Hjarðarholt í guðþjónustur þar. Ekki er komin dagsetning á þær.
Þá er bara að fara út og æfa sig og mæta hress í næstu gönguferð.
10. maí 2011
Myndir frá gönguferðinni á Tungumúla
Það voru 14 Dalagarpar sem gengur á Tungumúlan sunnudaginn 8.maí. Jón Benediktsson fyrrverandi bóndi í Sælingsdalstungu gekk með hópnum og sagði frá staðháttum, örnefnum og öðru sem tengdist svæðinu. Veður var þokkalegt; fremur stíf norðanátt en bjartur himinn er leið á daginn. Hækunin var um 300 metar.
Margt var spjallað og skrafað á leiðinni og fólk gaf sér góðan tíma til að ganga á fjallið og njóta útiveru og samvista. Eftir gönguferðina fór hluti hópsins í sund á Laugum.
Myndir af ferðinni eru komnar inn á síðuna hér til hliðar. Einnig hægt að fara beint á albúmið á þessari slóð.
Í heita pottinum á Laugum voru lagðar línur með gönguferðir sumarsins. Niðurstaðan var eitthvað í þessa átt:
a) Gengið á eitt hátt fjall á mánuði
b) Farið í krikjugöngur; gengið frá Búðardal og til messu í Hjarðarholti
c) Farið í léttari göngur; fell, múlar og á jafnslétta (t.d.fjörur).
d) Reynt að hafa alltaf með í för einhvern kunnugan staðháttum, sögu og örnefnum.
Ekki var gengið frá neinni dagskrá en Herdís og Eyjólfur munu gera tillögu að slíku á næstu dögum.
Margt var spjallað og skrafað á leiðinni og fólk gaf sér góðan tíma til að ganga á fjallið og njóta útiveru og samvista. Eftir gönguferðina fór hluti hópsins í sund á Laugum.
Myndir af ferðinni eru komnar inn á síðuna hér til hliðar. Einnig hægt að fara beint á albúmið á þessari slóð.
Í heita pottinum á Laugum voru lagðar línur með gönguferðir sumarsins. Niðurstaðan var eitthvað í þessa átt:
a) Gengið á eitt hátt fjall á mánuði
b) Farið í krikjugöngur; gengið frá Búðardal og til messu í Hjarðarholti
c) Farið í léttari göngur; fell, múlar og á jafnslétta (t.d.fjörur).
d) Reynt að hafa alltaf með í för einhvern kunnugan staðháttum, sögu og örnefnum.
Ekki var gengið frá neinni dagskrá en Herdís og Eyjólfur munu gera tillögu að slíku á næstu dögum.
4. maí 2011
Fyrsta ganga sumarsins
Sunnudaginn 8.maí verður fyrsta ganga gönguhópsins farin. Dalagarpar ætla að ganga á Tungumúla, sem er á milli Sælingsdals og Svínadals. Gangan er létt og hentar alveg stálpuðum börnum.
Farið verður frá Sælingsdalstungu kl. 11.00 og nesti snætt í Múlanum. Jón Benediktsson (Nonni) gengur með hópnum og upplýsir fólk um staðhætti og örnefni. Að göngu lokinni verður opið í sundlauginni á Laugum, þökk sé Önnu og Jörgen. Áætlað er að vera komin í sundið milli kl. 13.-14.
Veðurspá er góð en rétt að minna á að enn er ekki kominn mikill lofthiti. Ekki er þörf á sérstökum útbúnaði nema þá sundfatnaði og aðgangseyri fyrir þá sem ætla í sundið.
Meiningin er að í þessari fyrstu ferð verði tíminn m.a. notaður til að spjalla saman, koma með hugmyndir að gönguleiðum og útfærslu þeirra.
Allir eru velkomnir í gönguferðina og þeir sem vilja skrá sig í gönguhópinn sendi endilega skráningu á netfangið dalagarpar@gmail.com
Farið verður frá Sælingsdalstungu kl. 11.00 og nesti snætt í Múlanum. Jón Benediktsson (Nonni) gengur með hópnum og upplýsir fólk um staðhætti og örnefni. Að göngu lokinni verður opið í sundlauginni á Laugum, þökk sé Önnu og Jörgen. Áætlað er að vera komin í sundið milli kl. 13.-14.
Veðurspá er góð en rétt að minna á að enn er ekki kominn mikill lofthiti. Ekki er þörf á sérstökum útbúnaði nema þá sundfatnaði og aðgangseyri fyrir þá sem ætla í sundið.
Meiningin er að í þessari fyrstu ferð verði tíminn m.a. notaður til að spjalla saman, koma með hugmyndir að gönguleiðum og útfærslu þeirra.
Allir eru velkomnir í gönguferðina og þeir sem vilja skrá sig í gönguhópinn sendi endilega skráningu á netfangið dalagarpar@gmail.com
26. apríl 2011
Nú förum við af stað
Gönguhópurinn ætlaði að vera kominn af stað í mars... en ekki tókst það nú. En betra er seint en aldrei og á næstunni er stefnt á að fara í gönguferð og skipuleggja ferðir næstu mánuði ef áhugi er fyrir hendi.
Gönguhópurinn er opinn félagskapur og stefnir að gönguferðum og útiveru í sinni víðustu mynd. Með tímanum er von að allir aldurshópar geti fundið sig í félagskapnum. Herdís og Eyjólfur sjá um að halda utan um hópinn fyrst um sinn. Stofnuð hefur verið lítil heimasíða á þessu bloggsvæði, sem verður upplýsingavettvangur hópsins.
En góðir félagar...hvar viljið þið ganga hér í Dölum ? Endilega sendið inn hugmyndir.
Verðum svo í sambandi næstu daga.
Eyjólfur
23. apríl 2011
Páskafrí
Í dag hefst páskafríið formlega. Ég er held að gönguhópurinn verði að fara að koma sér af stað fyrir sauðburð. Þetta bara gengur ekki lengur.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)