28. janúar 2012

Gönguskór

Fólk kaupir sér ekki gönguskó á hverju ári.  Þegar slíkir skór eru keyptir þarf að huga að mörgu enda verið að leggja í talsverða fjárfestingu.  Gönguskór voru hér á árum áður þyngri en líka sterkari.  Þetta hefur verið að breytast og nú eru þeir bæði léttari og sveigjanlegri.  Verð á gönguskóm segir ekki allt.  Hafa verður í huga að bæði eru fætur mismunandi og að fólk notar skóna mjög mismikið.

Hér hjálagt er slóð á vef sem helgar sig umfjöllum um gönguskó og selur einnig ákveðna tegund af þeim.  Fróðleikur um umhirðu, gerð og val á gönguskóm.

http://www.gonguskor.is/

17. janúar 2012

Útivist

Nú er Útivist búin að gefa út útivistarblaðið sitt fyrir árið 2012.  Þar gætir margra grasa.  Það sem manni finnst hvað skemmtilegast er að sjá stöðugt nýjar útfærslur á skipulagðri útvist.  T.d. hópa sem fara í ljósmyndferðir, koma sér í form á veturnar til að komast á fjöll, margar tegundir af jeppaferðum og fleira og fleira.  Mér finnst Útivist hafa elst vel - þetta frábæra félag er stöðugt að gera hlutina á nýjan veg.

Hvernig væri að líta á heimasíðuna þeirra www.utivist.is og skella sér í félagskapinn eða í ferð með þeim ?

4. september 2011

Gangan á Klofningsfjall

Að þessu sinni mættu aðeins þrír Dalagarpar í gönguna á Klofningsfjall.  Lagt var af stað frá Stakkabergi kl. 11.00 í blíðskaparveðri.  Gengið var upp með Fábeinsá upp á brún og var hækkunin um 450 metrar.  Síðan var gengið fram fjallið út að Klofningi.  Fram á brún var einstaklega fallegt útsýni og ótrúlegt að sjá allar þessar eyjar, Hvammsfjarðarröstina, Dagverðarnesið og Langeyjarnesið úr lofti.  Útsýni var einnig frábært vestur á firði og sást Flatey t.d. mjög vel með húsum og öllu.  Farin var hlíðin til baka og farið stall af stalli frá Hnúki og niður að Stakkabergi.  Berjalyng voru svört af stórum Krækiberjum alla leiðina.  Samtals var gengin 9, 2 kílómeter á 5,5 klukkstundum.  Hæsti punktur yfir sjó var 510 m.

30. ágúst 2011

Klofningsfjall


Á sunnudaginn kemur kl. 11.00  er áætluð gönguferð á Klofningsfjall.  Verðurspá er hagstæð eins og er og fjallið hvorki hátt né erfitt.  Útsýni af fjallinu er mjög mikið og fallegt og nær yfir allan Breiðafjörð.  Gengið verður upp frá bænum Stakkabergi.  Nú er um að gera að fjölmenna í þessa síðustu göngu sumarsins.  Góð upphitun fyrir komandi smalamennsku.

Dalagarpar verða svo vonandi uppi um öll fjöll í haust á eftir blessaðri sauðkindinni.

11. ágúst 2011

Hafratindur í Saurbæ


Næstkomandi sunnudag er á dagskránni að klífa hið fagra fjall Hafratind í Saurbæ.  Þetta fjall er rúmlega 900 metra hátt með frábært útsýni af toppnum yfir allan Breiðafjörð og vestur á firði.
Lagt verður af stað eins og venjulega kl. 11.00.  Við göngum frá Þverdal, sem er eyðubýli inni í Staðarhólsdalnum.  Farið er yfir Staðarhólsánna á brúnni að Kverngrjóti og ekið þaðan að Þverdal. Gengið verður uppúr Þverdalnum á fjallið og farið á báða toppa fjallsins. Gengið verður sömu leið til baka.  Ætla má daginn í gönguna, sem hvergi er neitt erfið en stundum brött og eitthvað verður um stórgrýti. Sturlaugur Eyjólfsson göngugarpur og eftirlaunaþegi gengur með hópnum.

Því miður er veðurspáin nokkuð tvísýn að þessu sinni.  Því vill ég fá svör, í tölvupósti eða símleiðis (899 7037), frá öllum þeim, sem hyggjast leggja á fjallið svo hægt sé á auðveldan hátt  að aflýsa göngunni ef með þarf.

Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta.

Lói

19. júlí 2011

Næsta kvöldganga - Grafartindar

Framundan er kvöldganga á Grafartinda í Reykjardal.  Gangan hefst kl.18.00 fimmtudaginn 21. júlí og verður lagt af stað frá gilinu þar sem sumarbústaðirnir standa.  Gengið er austanmeginn við gilið upp eftir götu sem hefur myndast þar.  Grafartindar eru yfir 800 m háir svo hækkunin er allnokkur.  Leiðin er hinsvegar hvergi erfið.  Útsýni af tindunum er mjög gott.

22. júní 2011

Baula

Næstkomandi sunnudag kl.11.00 verður gengið á Baulu.  Við skulum hittast í gömlu S-beyjunni (neðstu beyjunni) sunnan Bröttubrekku og skoða hvort við komumst yfir ánna þaðan. Þarf kannski að vaða lítilega ef ekki er hægt að skoppa á steinum yfir.  Það munar nokkuð á göngulengd að þurfa ekki að fara yfir brúnna og hefja gönguna þaðan.

Líparítfjallið Baula er 917 metra hátt og er ekki næstum eins illkleyft eins og það lítur út fyrir að vera.   Áfast Baulu er Mælifellið, sem gæti hentað þeim sem ekki treysta sér á Bauluna en vilja engu að síður ganga á fjall. Hægt er að ganga nokkuð auðveldlega á Baulu úr minnst þremur áttum.  Nokkur snjór er nú í fjallinu og skulum við athuga hvort hann varni nokkuð norðausturleiðinni, en hún er talin auðveldasta leiðin.  Stórgrýtt er í fjallinu en lítið um kletta.   Ekki er gott að ganga fannir á þessu fjalli og ber að varast þær.  Uppgöngutími er trúlega um 3-4 klukkustundir eftir færi og uppgönguleið.  Það má reikna með mestöllum deginum í þetta og því þarf slatta af nesti í bakpokann.  Á toppi Baulu er oft dúnalogn og afar gott útsýni.

Veðurspá er nokkuð góð en Dalagarpar hafa ekki samt ekki haft góða veðrið með sér enn sem komið er.  Vonandi breytist það á sunnudaginn.


Tökum góða veðrið með okkur og mætum sem flest á Baulu.