22. júní 2011

Baula

Næstkomandi sunnudag kl.11.00 verður gengið á Baulu.  Við skulum hittast í gömlu S-beyjunni (neðstu beyjunni) sunnan Bröttubrekku og skoða hvort við komumst yfir ánna þaðan. Þarf kannski að vaða lítilega ef ekki er hægt að skoppa á steinum yfir.  Það munar nokkuð á göngulengd að þurfa ekki að fara yfir brúnna og hefja gönguna þaðan.

Líparítfjallið Baula er 917 metra hátt og er ekki næstum eins illkleyft eins og það lítur út fyrir að vera.   Áfast Baulu er Mælifellið, sem gæti hentað þeim sem ekki treysta sér á Bauluna en vilja engu að síður ganga á fjall. Hægt er að ganga nokkuð auðveldlega á Baulu úr minnst þremur áttum.  Nokkur snjór er nú í fjallinu og skulum við athuga hvort hann varni nokkuð norðausturleiðinni, en hún er talin auðveldasta leiðin.  Stórgrýtt er í fjallinu en lítið um kletta.   Ekki er gott að ganga fannir á þessu fjalli og ber að varast þær.  Uppgöngutími er trúlega um 3-4 klukkustundir eftir færi og uppgönguleið.  Það má reikna með mestöllum deginum í þetta og því þarf slatta af nesti í bakpokann.  Á toppi Baulu er oft dúnalogn og afar gott útsýni.

Veðurspá er nokkuð góð en Dalagarpar hafa ekki samt ekki haft góða veðrið með sér enn sem komið er.  Vonandi breytist það á sunnudaginn.


Tökum góða veðrið með okkur og mætum sem flest á Baulu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli