12. júní 2011

Fréttir af göngunni á Háfinn

Að þessu sinni mættu 10 Dalagarpar í fyrstu kvöldgöngu sumarsins, sem var síðastliðinn fimmtudag.  Nokkuð kalt var í veðri þetta kvöldið og Háfurinn stundum sveipaður þoku og stundum ekki.
Þegar á gönguna leið upp fjallið lentu Göngugarpar í miklum vindstreng sem lá niður dalinn efst í fjallinu.  Svo mikill var vindurinn og kuldinn að ekki náðu allir toppnum í þetta skiptið.

En Dalagarparnir létu mótlætið ekki á sig fá og lauk hver og einn sinni göngu með prýði.  Þorgrímur og Helga á Erpstöðum kröfðust svo í göngulok að allir kæmu heim að Erpstöðum í rjómapönsur og létu göngumenn það eftir þeim með ljúfu geði.  Kærar þakkir til Erpstaðabænda.

Sökum veðurs var myndavélin lítið notuð og fylgja aðeins þessar tvær myndir þessari göngu.

En sem komið er hafa Dalagarpar ekki náð að ganga í blíðskaparveðri.  Hefur veiður heldur versnað í göngum þeirra eftir því sem á sumarið hefur liðið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli