22. júní 2011

Baula

Næstkomandi sunnudag kl.11.00 verður gengið á Baulu.  Við skulum hittast í gömlu S-beyjunni (neðstu beyjunni) sunnan Bröttubrekku og skoða hvort við komumst yfir ánna þaðan. Þarf kannski að vaða lítilega ef ekki er hægt að skoppa á steinum yfir.  Það munar nokkuð á göngulengd að þurfa ekki að fara yfir brúnna og hefja gönguna þaðan.

Líparítfjallið Baula er 917 metra hátt og er ekki næstum eins illkleyft eins og það lítur út fyrir að vera.   Áfast Baulu er Mælifellið, sem gæti hentað þeim sem ekki treysta sér á Bauluna en vilja engu að síður ganga á fjall. Hægt er að ganga nokkuð auðveldlega á Baulu úr minnst þremur áttum.  Nokkur snjór er nú í fjallinu og skulum við athuga hvort hann varni nokkuð norðausturleiðinni, en hún er talin auðveldasta leiðin.  Stórgrýtt er í fjallinu en lítið um kletta.   Ekki er gott að ganga fannir á þessu fjalli og ber að varast þær.  Uppgöngutími er trúlega um 3-4 klukkustundir eftir færi og uppgönguleið.  Það má reikna með mestöllum deginum í þetta og því þarf slatta af nesti í bakpokann.  Á toppi Baulu er oft dúnalogn og afar gott útsýni.

Veðurspá er nokkuð góð en Dalagarpar hafa ekki samt ekki haft góða veðrið með sér enn sem komið er.  Vonandi breytist það á sunnudaginn.


Tökum góða veðrið með okkur og mætum sem flest á Baulu.

15. júní 2011

Gönguferð fyrir alla

Minnum Dalagarpa á eftirfarandi göngutúr

 
   
Dagur hinna villtu blóma hefur verið haldinn hér á landi síðan árið 2004. Í ár verður hann sunnudaginn 19. júní. Þá gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa.

Í Dölum verður haldið af stað frá Ytri-Fagradal kl 16:00. Gengið verður niður að fjöru og farið eftir ströndinni að Nýpurá. Þá verður gengið að Nýp. Þar getur fólk valið um að ljúka göngunni eða rölta eftir veginum inn að Ytri-Fagradal.

Fjölbreytt flóra er á þessari leið, sum blómin jafnvel eldgömul og steingerð! 

Áætlað er að göngutúrinn taki um tvo tíma og er þetta auðveld ganga öllum aldurshópum.



12. júní 2011

Fréttir af göngunni á Háfinn

Að þessu sinni mættu 10 Dalagarpar í fyrstu kvöldgöngu sumarsins, sem var síðastliðinn fimmtudag.  Nokkuð kalt var í veðri þetta kvöldið og Háfurinn stundum sveipaður þoku og stundum ekki.
Þegar á gönguna leið upp fjallið lentu Göngugarpar í miklum vindstreng sem lá niður dalinn efst í fjallinu.  Svo mikill var vindurinn og kuldinn að ekki náðu allir toppnum í þetta skiptið.

En Dalagarparnir létu mótlætið ekki á sig fá og lauk hver og einn sinni göngu með prýði.  Þorgrímur og Helga á Erpstöðum kröfðust svo í göngulok að allir kæmu heim að Erpstöðum í rjómapönsur og létu göngumenn það eftir þeim með ljúfu geði.  Kærar þakkir til Erpstaðabænda.

Sökum veðurs var myndavélin lítið notuð og fylgja aðeins þessar tvær myndir þessari göngu.

En sem komið er hafa Dalagarpar ekki náð að ganga í blíðskaparveðri.  Hefur veiður heldur versnað í göngum þeirra eftir því sem á sumarið hefur liðið.

7. júní 2011

Fyrsta kvöldganga sumarsins

Fimmtudaginn 9. júní kl. 18.00 verður gengið á fjallið Háf og tindinn Hrískinnahnjúk í Miðdölum.  Báðir tindarnir erum rúmlega 800 metra háir.  Dalagarpar hafa fengið leyfi hjá bændunum á Háafelli  til að leggja bílum á bæjarhlaðinu  og hefja fjallgönguna þaðan.  Gengið verður frá fjárhúsunum, utan girðingar upp með gilinu og þaðan norðan eða norðvestanmegin á fjallið.
Gönguferðin upp á Háfinn ætti að taka  um klukkustund  og síðan tekur það annan klukkutíma að ganga  upp á Hrískinnahnjúk.  Þannig að  í allt  ætti gönguferðin að taka rúmar 4 klukkustundir fram og til baka.

Þar sem þessi ganga er til muna erfiðari en fyrstu tvær göngurnar er upplagt fyrir þá sem hægar fara yfir að ganga aðeins á annan tindinn.

Spáð er köldu veðri þetta kvöld og nokkuð víst að uppi á tindunum verður hitastig undir frostmarki.  

Því miður verður heimilisfólk á Háafelli ekki heima þetta kvöldið og geta því ekki verið með leiðsögn.  

Svo er bara að fjölmenna í gönguna.

Herdís og Eyjólfur